Skilmálar fyrir leigusamningi á kerrum

Allir þessir skilmálar eru hluti þess leigusamnings sem undirritaður er á framhlið.

1.0. Aðild, ábyrgð og skilyrði fyrir leigu.

1.1. Eigandi hins leigða, sem er hestakerra er Brokk-netverslun ehf., kt. 590221-2600 og er því nefndur leigusali í leigusamningi þessum.
1.2. Leigutaka sem nafngreindur er í leigusamningi þessum er einum heimilt að draga og meðhöndla hið leigða.
1.3. Leigutaki þarf að hafa gild ökuréttindi sem veita heimild til að draga hið leigða og ábyrgist að ökutæki það sem notað er til dráttar á hinu leigða sé hæft til þess og hafi heimild til að draga hið leigða.
1.4. Leigusali verður aldrei ábyrgur vegna greiðslu kostnaðar sem orsakast af bilun, galla, skemmdum eða rangrar notkunar á hinu leigða, á leigutímanum, af hvaða orsökum sem það er.
1.5. Leigusali verður aldrei ábyrgur fyrir rekstrarágóða eða óbeinu tapi leigutaka sem rekja má til hins leigða, á leigutímanum.
1.6. Leigutaka er óheimilt að framleigja hið leigða.
1.7. Leigutaka er óheimilt að nota hið leigða til flutnings á mönnum eða hlaða hið leigða umfram það sem hið leigða er ætlað fyrir, sem er flutningur á hrossum.
1.8. Óheimilt er að aka með hið leigða um óbrúaðar ár, vegatroðninga, snjóskafla, ís eða aðrar vegleysur. Við þær aðstæður fellur hugsanlegt tjón að öllu leyti á ábyrgð leigutaka.

2.0. Ástand hins leigða við upphaf leigutíma.
2.1. Leigutaki tekur við hinu leigða í því ástandi sem það er við upphaf leigutíma og lýsir því yfir að hann sætti sig við það að öllu leyti. Leigutaki staðfestir með móttöku á hinu leigða að hafa kannað ástand þess, að það sé í lagi. Sérstaklega skal leigutaki kanna og staðfesta að ljós, stefnuljós og hjólbarðar séu í góðu lagi.

3.0. Ástand hins leigða að leigutíma loknum – ábyrgð vegna skemmda.
3.1. Að leigutíma loknum skal leigutaki skila hinu leigða í sama ástandi og það var í við upphaf leigutíma að teknu tilliti til eðlilegs slits vegna eðlilegrar notkunar á leigutíma að mati leigusala.
3.2. Allar skemmdir sem verða á hinu leigða á leigutíma eru alfarið á ábyrgð leigutaka. Sé um slíkt að ræða er leigusala heimilt að láta gera við skemmdir og krefja leigutaka um greiðslu kostnaðar vegna viðgerðar.
3.3. Leigutaki ber alla ábyrgð sem rekja má til slæmrar eða rangrar umgengni við hið leigða t.d. ef stöðuhjól er ekki rétt stillt eða ekki sett upp við akstur, hið leigða sé ofhlaðið eða rangur loftþrýstingur sé í hjólbörðum.
3.4. Leigutaki skuldbindur sig til að greiða að fullu tjón/altjón sem verður á hinu leigða á leigutíma skv. útreikningi leigusala.
3.5. Tjón sem nemur lægri fjárhæð en 50.000 kr. greiðist af leigutaka. Tjón yfir 50.000 kr – eða altjón er alltaf að fullu á ábyrgð leigutaka.
3.6. Hinu leigða skal við lok leigutíma skilað í þrifalegu ástandi. Sé að mati leigusala þörf á sérstökum þrifum á hinu leigða að leigutíma loknum er leigusala heimilt að innheimta kostnað vegna þrifa samkvæmt gjaldskrá leigusala, sem innheimtist við skil.

4.0. Gildistími leigusamnings – úrræði leigusala vegna brota á ákvæðum um gildistíma.
4.1. Leigusamningur þessi rennur út á fyrirfram tilgreindum tíma. Framlenging samnings þessa er aðeins heimil með samþykki leigusala og í síðasta lagi 2 klst. áður en leigusamningur rennur út.
4.2. Að leigutíma loknum skal leigutaki skila hinu leigða til leigusala í sama ástandi og hann tók við því. Fari leigutími fram yfir umsamdan tíma greiðist sá tími samkvæmt gjaldskrá leigusala.
4.3. Skili leigutaki hinu leigða ekki á umsömdum tíma er leigusala heimilt að sækja hið leigða á hvern þann stað sem það er að finna og taka í sína vörslu, allt á kostnað leigutaka.
4.4. Finnist hið leigða ekki hjá leigutaka skuldbindur leigutaki sig til að greiða leigusala verðmæti hins leigða allt eftir útreikningi leigusala eigi síðar en 10 dögum eftir að áskorun þess efnis er send leigutaka.

5.0. Tryggingar
5.1. Hið leigða er tryggt skv. umferðarlögum (nr. 50/1987) þegar það er í notkun og fest aftan í ökutæki. Þannig er hið leigða alfarið á ábyrgð leigutaka þegar það er í notkun í tengslum við ökutæki.
5.2. Tjón sem hlýst af notkun hins leigða þegar stöðugur vindur er meiri en 13 m/s eða meiri en 20 m/s í vindhviðum er ávallt og alfarið á ábyrgð leigutaka.
5.3 Kerran getur tekið á sig mikinn hliðarvind í drætti. Ekki skal aka með eftirvagninn á svæðum þar sem varað hefur verið við akstri eða akstri með eftirvagn vegna óveðurs, akstursskilyrða eða þar sem vindstyrkur mælist sannanlega yfir 24,5 m/sek. Við þær aðstæður fellur hugsanlegt tjón að öllu leyti á ábyrgð leigutaka.
5.4 Athugið að ábyrgðartrygging fyrir dráttarkúlu ökutækis sé fyrir hendi
5.5 Hafa í huga að samkvæmt umferðarlögum þarft þú réttindi til að draga tengivagn
5.6 Löglegur hámarkshraði fyrir bíl með tengivagn er 80 km/klst
5.7 Leyfð heildarþyngd eftirvagns á dráttarkúlu er mismunandi eftir gerð ökutækis
5.8 Ekki er heimilt að aka með tengivagn um vegleysur, óbrúaðar ár, vegtroðninga, snjóskafla, ís eða aðrar vegleysur.
5.9 Skemmdir sem verða við akstur utan þjóðvegakerfis, yfir snjóskafla, ís, óbrúaðar ár eða læki og utanvegar eru á ábyrgð leigutaka.

6.0. Afpöntun
6.1. Ef leigutaki afpantar hið leigða 24 klukkustundum fyrir umsaminn leigutíma, á hann ekki rétt á endurgreiðslu, heldur myndast inneign hjá leigusala, sem leigutaki getur þá nýtt við síðara tímamark.

6.2. Ef afpöntun á sér stað sama dag og leiguafnot hefjast kemur hvorki til endurgreiðslu né inneignar.

7.0. Annað
Aðilar ganga til leigusamnings þessa með fúsum og frjálsum vilja. Aðilar skulu sýna hvor öðrum trúnað og hollustu og reyna eftir fremsta megni til að efna leigusamninginn.
Allar breytingar á leigusamningi þessum skulu vera skriflegar og samþykktar af aðilum. Komi til ágreinings á grundvelli þessa samnings, skal dómsmál um hann rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Öllu framangreindu til staðfestingar er samkomulag þetta undirritað rafrænt af hálfu aðila. Rafræn undirritun samkomulagsins er í samræmi við lög nr. 55/2019 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.